Lifrarbólga B

Hvað er lifrarbólga B? 

Lifrarbólga B er lifrarsýking af völdum lifrarbólgu B veirunnar sem dreifist ef fólk kemst í snertingu við sýkta líkamsvökva.

Flestar sýkingar eiga sér stað við snertingu við sýkt blóð, en sæði, munnvatn og leggangavökvi geta einnig verið smitandi.

Eftir bráða eða skammvinna sýkingu af völdum lifrarbólgu B verður sýkingin langvinn eða langvarandi hjá sumum.

í stuttu máli: Lifrarbólga B í Evrópu

  • Lifrarsýking af völdum veiru
  • Lifrarbólga B smitast með sýktum líkamsvessum.
  • Um 25.000 tilkynnt tilfelli á ári
  • Lifrarbólga B og C orsaka um það bil 55% lifrartengdra dauðsfalla í Evrópu
  • Um það bil 3,6 milljónir einstaklinga í ESB/EES hafa króníska lifrarbólgu B, sem eykur líkur þeirra á lifrarkrabbameini.
  • Bólusetning getur komið í veg fyrir lifrarbólgu B og fylgikvilla hennar 

Finndu út meira um bóluefnið í þínu landi.

Nauseous man

Hver eru einkenni bráðrar sýkingar vegna lifrarbólgu B? 

Bráð sýking vegna lifrarbólgu B er oft einkennalaus, einstaklingar sem fá einkenni kunna að finna fyrir eftirfarandi:

  • gula (gulnun húðar eða augnhvítu)
  • dökkt þvag
  • þreyta
  • lystarleysi
  • óþægindi í kvið
  • ógleði
  • uppköst
  • hiti

Hverjir eru fylgikvillar lifrarbólgu B? 

Sumir fá langvinna sýkingu í kjölfar smits af völdum lifrarbólgu B veiru. Því yngri sem einstaklingur er við smit, þeim mun líklegra er að hann fái langvinna sýkingu. Til dæmis fá allt að 90% ungbarna sem sýkjast af veirunni langvinna sýkingu samanborið við innan við 5% fullorðinna.

Fólk með langvinna sýkingu er í meiri hættu á að fá fylgikvilla, þar á meðal skorpulifur (örvefsmyndun í lifur) og lifrarkrabbamein (lifrarfrumukrabbamein).

couple illustration

Hvernig smitast lifrarbólga B? 

Lifrarbólga B smitast með snertingu við sýkta líkamsvökva, svo við blóðblöndun eða kynmök. Í ESB/EES er smit við kynlíf algengasta smitleið veirunnar.

Smit getur átt sér stað í heilbrigðisþjónustu vegna ófullnægjandi dauðhreinsunar lækningatækja eða endurnotkunar á sprautum og nálum, slík smit eru fátíð í heilbrigðisþjónustu í Evrópu. Smit með blóðgjöf eða blóðafurðum er nú sjaldgæf í Evrópu vegna hertra reglna um öryggi blóðs.

Veiran getur einnig smitast frá móður til barns við fæðingu. Slíkt er sjaldgæft í Evrópu þökk sé skoðunum á meðgöngu (meðgönguskimun) og bólusetningu við fæðingu ef móðir reynist jákvæð fyrir veirunni. Hins vegar er smit frá sýktri móður til barns á meðgöngu eða við fæðingu ein algengasta smitleiðin á heimsvísu.

Veiran getur stundum einnig smitast með notkun hluta sem hafa mengast af sýktum líkamsvessa. Hlutir til einstaklingsnotkunar sem rjúfa húð eða slímhúð við venjulega notkun, svo sem rakvélar og tannburstar, geta mengast með sýktu blóði og borið smit milli einstaklinga. 

Hverjir eru í áhættu að fá lifrarbólgu B?

Þrátt fyrir að allir geti fengið lifrarbólgu B eru eftirfarandi hópar í meiri áhættu:

  • makar fólks með lifrarbólgu B
  • fólk sem sprautar sig með eiturlyfjum eða deilir nálum, sprautum og öðrum lyfjabúnaði
  • ungbörn mæðra með lifrarbólgu B
  • heimilisfólk einstaklinga með lifrarbólgu B
  • tilteknir hópar sjúklinga s.s. sykursjúkir og fólk í blóðskilun 
  • heilbrigðisstarfsmenn sem eru útsettir fyrir blóði
process of vaccination illustration

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir lifrarbólgu B? 

Bólusetning gegn lifrarbólgu B er áhrifaríkasta leiðin til að koma í veg fyrir sýkingu. Örugg og skilvirk bóluefni veita mikla vernd og eru börn í flestum löndum Evrópu bólusett gegn lifrarbólgu B. Á Íslandi er mælt með bólusetningu tiltekinna áhættuhópa en Bólusetning er ekki í almennum barnabólusetningu.

Einnig er hægt að koma í veg fyrir útbreiðslu lifrarbólgu B með:

  • því að forðast að deila með öðrum nálum og öðrum búnaði sem mengast við notkun
  • notkun smokka við öll kynmök
  • ítarlegum ráðstöfunum til að tryggja öryggi blóðs og blóðhluta
  • öflugum sýkingavörnum í heilbrigðisþjónustu

Hvernig er lifrarbólga B meðhöndluð? 

Flestir sjúklingar með bráða sýkingu vegna lifrarbólgu B veiru fá ekki sérstaka veiruhamlandi meðferð heldur stuðningsmeðferð á grundvelli einkenna.

Hægt er að meðhöndla langvinna sýkingu af lifrarbólgu B með veiruhamlandi lyfjum. Meðferð læknar ekki sýkingu í einstaklingi en hún getur hægt á eða stöðvað framrás skorpulifur, dregið úr líkum á lifrarkrabbameini og bætt lífslíkur fólks til langs tíma litið. 

Athugið: Upplýsingarnar sem eru í þessum staðreyndablöðum eru ætlaðar sem almennar upplýsingar og ætti ekki að nota þær í staðinn fyrir einstaka sérfræðiþekkingu og mat heilbrigðisstarfsmanns.