Beinbrunasótt
Hvað er beinbrunasótt?
Beinbrunasótt er veirusýking sem dreifist til manna með biti frá sýktum moskítóflugum. Sjúkdómurinn er algengastur í Suður-Ameríku og Suðaustur-Asíu, en finnst einnig í Afríku. Beinbrunasótt getur valdið alvarlegum og stundum jafnvel lífshættulegum fylgikvillum.
Beinbrunasótt er sjaldgæf í ESB/EES en hrinur sjást stundum í Suður-Evrópu. Fólk sem ferðast til svæða þar sem sjúkdómurinn er algengur er í mestri hættu á smiti. Um allan heim sýkir dengue-veiran milljónir manna á hverju ári og drepur 20.000-25.000.
í stuttu máli:
- Beinbrunasótt er einn algengasti sjúkdómurinn sem berst með moskítóflugum í heiminum. Algengast er að finna sjúkdóminn í suðrænum og heittempruðu hlutum heimsins, þar sem tugi milljóna manna smitast á hverju ári og sjúkdómurinn veldur á milli 20.000-25.000 dauðsföllum.
- Þó sjúkdómurinn sé ekki algengur í ESB/EES eru um 2000 tilfelli tilkynnt á hverju ári; nánast öll tilfelli tengjast ferðalögum.
- Hægt er að koma í veg fyrir beinbrunasótt með bólusetningu.
Hver eru einkenni beinbrunasóttar?
Beinbrunasótt veldur yfirleitt hita og flensulíkum einkennum, þ.m.t.:
- Hita
- Vöðva- eða liðverkjum
- Sársauka á bak við augun
- Útbrot
- Ógleði
Hverjir eru fylgikvillar beinbrunasóttar?
Þó að flestar beinbrunasóttarsýkingar valdi engum eða aðeins vægum einkennum, getur sýkingin í sumum tilfellum valdið lífshættulegum fylgikvillum. Einkenni alvarlegrar beinbrunasóttar koma yfirleitt fram innan tveggja daga frá því að fyrstu einkennin hverfa. Alvarleg einkenni beinbrunasóttar eru m.a.:
- Magaverkur
- Uppköst
- Blóð í uppköstum eða hægðum
- Blóðnasir
- Blæðandi tannhold
- Mikil þreyta
- Eirðarleysi
- Fylgikvillar í lungum
- Lágur blóðþrýstingur
- Hætta á hjartasjúkdóm
Hjá þunguðum konum getur beinbrunasótt einnig valdið fylgikvillum, þar á meðal aukinni hættu á meðgöngueitrun, vandamáli hjá fóstri og fyrirburafæðingu.
Hvernig smitast beinbrunasótt?
Beinbrunasótt smitast oftast til manna með bitum frá sýktum Aedes moskítóflugum.
Hverjir eru í hættu að fá beinbrunasótt?
Á flestum svæðum innan ESB/EES er mjög ólíklegt að fólk verði bitið af sýktri moskítóflugu. Fólk sem ferðast til svæða þar sem beinbrunasótt er algengari er í meiri hættu á sýkingu.
Að auki er hætta á að einstaklingar sem hafa áður fengið beinbrunasótt fái alvarlegan sjúkdóm ef þeir smitast aftur.
Hvernig er hægt að koma í veg fyrir beinbrunasótt?
Bólusetning getur verndað gegn beinbrunasótt.
Fyrir utan að fá bólusetningu er fólk eindregið hvatt til þess að forðast útsetningu fyrir moskítóbiti með því að klæðast fötum sem hylja líkamann og nota flugnaeitur á svæðum þar sem þær gætu borið beinbrunasótt.
Hvernig er beinbrunasótt meðhöndluð?
Engin sértæk meðferð er til við beinbrunasótt Meðferð við vægum tilfellum felur venjulega í sér næga hvíld, drekka nægan vökva og einkennameðferð þar til sjúkdómurinn er liðinn hjá. Tilfelli af alvarlegri beinbrunasótt geta þurft innlögn á gjörgæslu.